Einn af þessum dögum!

bad dayÁtti mjög erfiðan dag vægast sagt!  Byrjaði daginn á því að kenna á vörubifreið í Reykjanesbæ í brjáluðu slagviðri, sem ekki væri í frásögu færandi ef vörubílinn hefði ekki orðið olíulaus með nemandann undir stýri úti í Höfnum af öllum stöðum!  Þar sem olíumælirinn var bilaður og ég hafði nýlega sett á hann olíu, gætti ég mín ekki á því að bílinn hafði verið í prófum allan mánudaginn og var þar af leiðandi orðinn mjög olíulítill þrátt fyrir það að mælirinn sýndi annað. Ekkert annað en aulaskapur hjá mér!  Þurfti þ.a.l. að brasa við það í hvassviðri og grenjandi rigningu að koma mér inn í Keflavík, ná í olíu á brúsa, aftur út í Hafnir (þar sem ekki er einu sinni sjoppa, hvað þá bensínstöð), tappa olíu af hráolíukerfinu og koma bílnum í gang, sem reyndar gekk ágætlega miðað við aðstæður!

Ekki tók betra við þegar á höfuðborgarsvæðið var komið!  Byrjaði á því að hjálpa fátækum námsmanni að endurheimta bíl sinn, eftir að hann hafði verið dreginn í burtu og klippt af honum.  Námsmaðurinn hafði orðið bensínlaus á leið í skólann á slæmum stað og tekið þá ákvörðun að skilja hann eftir um stundarsakir til að missa ekki af tímanum í skólanum!  Áður hafði verið búið að líma á bílinn hans boðun í skoðun.  Fór með námsmanninum í Krók á Dalvegi í Kópavogi til að sækja bílinn. Þar var okkur sagt að lögreglumennir sem komu með bílinn hafi verið svo illir yfir því hvar bílinn var skilin eftir  að þeir hafi ákveðið að klippa af honum líka!  Þetta finnst mér ekki boðleg vinnubrögð hjá lögreglunni í Kópavogi!  Þeir höfðu að vísu fulla heimild til að klippa af bílnum, en að láta það spyrjast út að þeir hafi gert það vegna þess að þeir hafi orðið svo illir eð fúlir getur ekki talist eðlilegt, en það er önnur saga. 

Svo drógum við bílinn yfir í Frumherja á Dalvegi til skoðunar, sem gekk vel, bílinn fékk fulla skoðun. En þegar kom hins vegar að því að endurheimta númerin fór aftur að syrta í álinn! Ég hafði fengið þær upplýsingar hjá Frumherja að númerin væru líklegast á Dalvegi, þar sem að lögreglan í Kópavogi færi vanalega með þau þangað ef klippt væri af bílum í Kópavogi.  Svo reyndist hins vegar ekki vera og mér var sagt að þau væru niður í Umferðarstofu í Borgartúni.  Við fórum því þangað, en án árangurs! Þau reyndust ekki vera þar og í ofanálag var mér sagt að þó að þau hefðu verið þar myndi ég ekki fá þau afhent þar sem að einungis skráður eigandi bílsins gæti leyst þau út, sem í þessu tilviki er afi námsmannsins.  Ekki vildi ég gefast upp, þannig að ég hringdi í lögregluna í Kópavogi, sem tjáði mér að númerin væru hjá þeim og þeir skyldu koma þeim til Frumherja á Dalvegi.  Þetta hafðist fyrir rest og við fengum númerin afhent.

Þegar ég hafði leyst vandamál námsmansins tók ekki betra við, vindlaust varð á jeppanum mínum og ég fór á næsta dekkjaverkstæði, sem reyndist vera Kaldasel á Dalvegi.  Þar var mér sagt að dekkið væri ónýtt, en því miður ættu þeir ekki annað dekk sömu stærðar!  Því varð að setja varadekkið undir, sem er minna en hin og í ofanálag vantaði þrjár rær sem þeir áttu heldur ekki til!  Þá ákvað ég að fara í VDO hólbarðarverkstæðið í Borgartúni, þar sem ég keypti dekkin á sínum tíma, þeir hlytu að eiga þetta.  En ekki var það svo gott!  Mín stærð var búin og ekkert sem þeir gætu gert!  Ég hugsaði með mér hvað meira gæti gerst í dag! Þaðan fór ég upp í Sólningu á Smiðjuveginum og sem betur fer gátu þeir bjargað mér (kostaði lika skildinginn), ég fékk bæði nýtt dekk og rær! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Jú Hallur, það eru einmitt svona dagar sem fá mann til að íhuga það alvarlega!!

Egill Rúnar Sigurðsson, 21.3.2007 kl. 09:08

2 Smámynd: Óttarr Makuch

Bíddu við eru ökukennarar ekki einmitt í þægilegri innivinnu Egill, sitja við við hliðina á ökumanninum og þurfa því ekki einu sinni að keyra :-) Kannski tekur þetta aðeins á taugarnar

En eru það ekki akkúrat þessir dagar sem gera hina 364 daga ársins svo sérstaka að maður gleðst að lokum yfir öllum 365 því þeir voru allir svo fjölbreyttir.

Óttarr Makuch, 21.3.2007 kl. 22:44

3 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Fer eftir því hvernig maður skilgreinir "innivinnu". Ökukennarar eru auðvitað "úti" að aka! Annars er hluti af minni vinnu þægileg innivinna, bæði í bílnum og fyrir framan tölvu og pappíra.

Egill Rúnar Sigurðsson, 21.3.2007 kl. 23:36

4 identicon

Gaman að lesa um þessar hrakfarir þínar, svona geta dagarnir verið "í bland" eins og svíarnir myndu orða það. Þá er bara að læra av reynslunni og vera með smá olíu aukalega í vörubílnum (er ekki nóg pláss). vonandi var dagurinn í dag betri hjá þér.

Heyrumst!

jökull (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband