Eldmessa Jóns Baldvins og Samfylkingin

   Jón Baldvin Hannibalsson var í Silfri Egils sl. sunnudag og fór mikinn.  Þar flutti hann mikla ,,eldmessu” um stjórnmála og efnahagsástandið hér á landi.  Jón fór hreinlega á kostum og hef ég ekki í annan tíma heyrt jafn hnitmiðaða gagnrýni og greiningu á stöðu mála.  

  Í sem stystu máli fjallaði Jón um okurþjóðfélagið Ísland, sem hann kallaði hina nýju birtingarmynd hins nýríka samfélags.  Hann fjallaði um verðtryggingarkrónuna, sem hann og Guðmundur Ólafsson hagfræðingur og háskólaprófessor eru sammála um að sé í raun ónýtur gjaldmiðill.  Þá talaði hann um okurvextina og ofurtollana, sem eru nú kapítali út af fyrir sig. Þá væri ,,vinnuþrælkunin” hér á landi orðin fáránleg eða 53 st. á viku að meðaltali! Hvers konar lífsgæði eru það spurði Jón. ,,Við erum að verða skrípamynd af bandarískum kapítalisma” sagði Jón og þar með að fjarlægjast Evrópu hvað þetta varðar. Þá talaði Jón um vaxtamunin hér á landi, sem áðurnefndur Guðmundur Ólafsson og Þorvaldur Gylfason prófessor hafa gert úttekt á og komist að þeirri niðurstöðu að vaxtamunurinn hér á landi sé hreint heimsmet og hvergi annars staðar neitt í líkingu við það sem hér gerist.   

  Jón Baldvin fullyrti að ríkisstjórn Sjálfstæðis og Framsóknarflokks hefðu gert stórkostleg hagstjórnarmistök og í raun hefði engin hagstjórn átt sér stað hér síðustu ár og vitnaði í því sambandi í einn helsta ,,gúrú” viðreisnarstjórnarinnar gömlu, Jónas Haralds.  Jón rökstuddi mál sitt með því að benda á þrjú atriði sem þarna skiptu mestu: 

1.   Ríksstjórnin réðst í gífurlegar stóriðjuframkvæmdir (álframkvæmdir) og virkjanir sem       fjármagnaðar voru með erlendu fé.

2.   Ríkisstjórnin ákvað á sama tíma að veita fólki 90% lán til íbúðarkaupa, sem hleypti           byggingamarkaðnum í algert uppnám.

3.   Slaki í ríkisfjámálum.   

  Þetta þrennt var gert í hagkerfi sem var við fulla framleiðslugetu og fulla atvinnu!  Innflutt vinnuafl bjargaði hins vegar því sem bjargað var, án þess hefði allt farið í kalda kol.   

  Afleiðing þessarra hagstjórnarmistaka urðu síðan þær að krónan styrktist óeðlilega mikið en veiktist síðan þegar erlendar fjármálastofnanir áttuðu sig á því að þetta byggðist allt á erlendu fjármagni og verðbólgan fór af stað í kjölfarið og er að kosta venjulegar fjölskyldur í landinu gífulega mikið, sem þær sitja margar hverjar uppi með í 30 ár eða svo í formi íbúðarlána.  Staðreyndirnar eru síðan þær að við sitjum uppi sem skuldugasta þjóðfélagið og heimilin skuldugustu heimili í heimi.   

 Endureisnin að mati Jóns á að felast í skynsamlegri hagstjórn, aðhaldssamri stórn efnahagsmála í gegnum ríkisfjármálin og frestun á frekari stóriðjuframkvæmdum en þetta tvennt fer saman. Alþingiskosningarnar í vor eiga að mati Jóns einkum að snúast 5 mál: 

1.     Hverjum treystum við best til þess að endureisa stöðugleikann, bæði út frá frá sjónarmiðum almennings og athafnamanna?

2.      Hríðvaxandi ójöfnuð fyrir áhrif skattakerfisins – Endurreisn velferðarkerfisins.

3.      Náttúruverndar- auðlinda og atvinnustefna sem rímar saman.

4.      Stjórnarskrárbreytingar.

5.      Stjórnbætur í lýðræðisátt.  

  Ég hef hér að ofan rakið sjónarmið JBH í eins stuttu máli og ég taldi mér unnt og get tekið undir hvert einasta orð, eins og talað úr mínu hjarta.  Það er engu líkara en JBH hafi gengið í endurnýjun lífdaga og komi nú fram á sjónarsviðið ferskari og sprækari en nokkru sinni fyrr.  

 Jón Baldvin Hannibalsson gagnrýnir einnig stjórnarandstöðuna og sinn flokk, Samfylkinguna og talar um hugsanlega nauðsyn þess að stofna nýjan stjórnmálaflokk og þar fara leiðir okkar að skilja!  Ég get að vísu tekið undir margt af gagnrýni á stjórnarandstöðunna, eins og það að vera alltaf að bregðast sérstaklega við einhverju sem kemur fram í fjölmiðlum og halda sig ekki nógu vel við aðalatriðin og það hefur minn flokkur Samfylkingin ekki gert nógu vel.    

  Eini stjórnmálaflokkurinn sem getur, vill og hefur tekið þessi málefni upp á sína arma, að mínu mati, eru sameinaðir jafnaðarmenn eða Samfylkingin.  Það tókst eftir áratugalangar tilraunir að sameina jafnaðarmenn (kannski ekki alveg alla) í einn flokk sem fékk yfir 30% fylgi í síðustu kosningum og varð þar með einn stærsti jafnaðarmannaflokkur á Norðurlöndum!  Dánárvottorð á flokkinn nú er algerlega ótímabært, þar sem ekki hefur enn verið talið upp úr kjörkössunum!  Þetta ætti JBH að vita manna best verandi karlinn í brúnni til fjölda ára í Alþýðuflokknum og stundum blés harkalega á móti.  Ætlar JBH að sundra jafnaðarmönnum jafnskjótt og þeir hafa náð að sameinast!  Ingibjörg Sólrún sýndi það í borginni að hún getur stjórnað og innann flokksins eru margir mjög hæfir einstaklingar aðrir.  Samfylkingin er frjálslyndur og nútímalegur jafnaðarmannaflokkur.  Við skulum í það minnsta sjá fyrst hvað kemur upp úr kjörkössunum áður en við segjum að honum hafi mistekist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óttarr Makuch

Ég get svo sannarlega tekið undir vel flest það sem Jón Baldvin sagði í þættinum um Samfylkinguna.  Það er orðið ljóst að valdarán Ingibjargar á flokknum frá Össuri með eftirminnilegum hætti hefur orðið til þess að fylgi flokksins er komið niður í sögulegt lágmark.

Í frétt á vef RÚV kemur fram að fylgi Samfylkingarinnar er hið minnsta á kjörtímabilinu samkvæmt könnun Gallups eða 22% en Samfylkingin fékk 30% atkvæða í síðustu kosningum

Þetta getur ekki verið annað en "dánarvottorð" fyrir formannssæti Ingibjargar enda orðið vel heitt í stólsetunni að sögn innanbúðarmanna flokksins.  Það er því orðin spurning hvort henni sé hreinlega stætt að sitja fram yfir kosningar eða ekki? 

En þú talar um sameiningu jafnaðarmanna, má vel vera EN það er samt ansi stór hluti "jafnaðarmanna" sem geta ekki stutt Samfylkinguna og annar hluti sem getur ekki stutt núverandi formann.  Það er alveg ljóst að það er enginn samleið milli Samfylkingar og þeirra aðila sem studdu Alþýðuflokkinn á sínum tíma, enda ekki að ástæðu lausu að gamlir Alþýðuflokksmeðlimir eru farnir að hittast á laun til þess að kanna hugsanlegt framboð í nafni síns gamla flokks!

Óttarr Makuch, 1.2.2007 kl. 20:46

2 Smámynd: Óttarr Makuch

Smá viðbót, það verður spennandi að sjá hvað verður talið upp úr kjörkössunum á kjördag því samkvæmt Rúv í dag er Vinstrihreyfingin grænt framboð með 21% fylgi yrði gengið til kosninga nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup en þeir voru með 9% atkvæða í síðustu kosningar svo það er spurningin hvor flokkurinn getur talist "blokk"?

Óttarr Makuch, 1.2.2007 kl. 20:48

3 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Ég skil það vel að þið Sjálfstæðismenn kætist yfir meintum vandræðum Samfylkingarinnar og fylgistapi í skoðanakönnunum.  Þið mættuð nú alveg líta ykkur nær.  Það er ljóst að þinn formaður, Geir Haarde,hefur ekki flokkinn óskiptan að baki sér sbr. væringarnar sem urðu á milli Björnsarmsins og Geirsarmsins í prófkjörinu í Reykjavík. 

Í þessari Gallup könnun fær þinn flokkur ekki nema 37% fylgi, sem er ekki gott fyrir þinn flokk í aðdraganda kosninga, flokk sem ávallt fær meira í skoðanakönnunum en kosningum. Þá fær Framsókn 9% þannig að samanlagt fylgi stjórnarflokkana er 46% og innan við helmingur þjóðarinnar styður ríkisstjórnina.  Ekki er það svo til að bæta stöðu ykkar að vera með siðlausan þingmann í 2. sæti á Suðurlandi

Egill Rúnar Sigurðsson, 1.2.2007 kl. 23:06

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Það er gott að bent, svo mikið er víst, en er innistæða fyrir bendingunum?  Það held ég ekki!

Það er alltaf svo að fólk tekst á í prófkjörum þá er sama í hvaða flokki fólk er starfandi en Sjálfstæðisflokkurinn hefur því láni að fagna að menn hafa getað aðgreint prófkjör frá daglegum störfum í þágu lands, þjóðar og flokks og því hafa menn geta snúið bökum saman strax eftir prófkjör og unnið landi og þjóð til heilla því flokkurinn stendur nú sem áður sem ein liðsheild!

Það fylgi sem er að mælast er yfir meðllagi fylgi flokksins séu tekinn þau ár sem hann hefur starfað í ríkisstjórn en ég er þess fullviss að það muni fara uppá við í næstu vikum og mánuðum. 

Óttarr Makuch, 2.2.2007 kl. 00:30

5 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Jafnaðarmenn voru yfirleitt í kringum 11-16 prósentin áður en Samfylkingin var stofnuð.  Í síðasta skipti sem Jón Baldvinn leiddi jafnaðarmenn (1995) fengu halaði hann inn heilum "11,4%" atkvæða.  Það að mælast í eitt skipti með um 22% fylgi hlýtur því að teljast lúxusvandamál hjá jafnaðarmönnum á Íslandi.  Það ætti Jón Baldvinn að þekkja hvað best sjálfur...

Sigfús Þ. Sigmundsson, 2.2.2007 kl. 02:16

6 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Hjartanlega sammála þér - JBH hafði rétt fyrir sér í mörgu en ekki að gefa út skotleyfi á "eigin" flokk bara til þess eins að stofna nýjann handa sjálfum sér.

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 2.2.2007 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband