Áfram Segolene Royal!

segoleneLíst betur og betur á þessa konu eftir því sem ég sé og heyri meira frá henni.  Vonandi bera Frakkar gæfu til að kjósa hana sem forseta 6. maí nk.

Eftir að niðurstöður úr fyrri umferð frönsku forsetakosninganna lágu fyrir og ljóst að baráttan stæði á milli hennar og frambjóðenda hægri manna sagði hún þetta: "Ég hvet alla þá sem vilja skipa mannúð ofar verkbréfamarkaðnum, alla þá sem vilja binda enda á óöryggið og forherðinguna til að sameinast,"  Líst vel á þessi orð hennnar og leyfi mér að spá henni sigri!


mbl.is Royal hvetur andstæðinga peningahyggjunnar til að sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgisaukning D lista og það þrátt fyrir Árna Johnsen!

Sjálfstæðisflokkurinn bætir verulega við sig fylgi í Suðurkjördæmi, skv. skoðanakönnun Capasent Gallup og þetta gerist þrátt fyrir veru Árna Johnsen á listanum! En Árni er sem kunnugt er í 2. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að jafn siðlaus maður og ég tel Árna Johnsen vera, á ekkert erindi á Alþingi á nýjan leik! Ég er satt best að segja mjög undrandi á því að vera Árna á listanum skuli ekki minnka fylgi flokksins. En kannski eru sunnlenskir kjósendur svona yfirmáta umburðarlyndir!

Hvað minn flokk, Samfylkinguna varðar, þá var rangt farið með að hún væri að tapa 2 mönnum frá síðustu kosningum, vorum með 3 kjördæmakjörna menn í síðustu kosningum, ekki 4 eins og haldið var fram en fengum einn uppbótarþingmann, sem gæti hæglega gerst aftur. Í raun er staða Samfylkingarinnar nokkuð ásættanleg, svipuð staða og 3 vikum fyrir síðustu kosningar.


Leyndardómar "draugaskútunnar" í Ástralíu.

Þetta er allt hið furðulegasta mál, en örugglega einhverjar "jarðbundnar" skýringar á þessu!  Hef ekki trú á því að þeir hafi verið brottnumdir af geimverum eða einhverjir yfirnáttúrulegir hlutir hafi átt sér stað.  Ætli þeir hafi ekki bara fallið útbyrðis, einn hugsanlega farið á undan og hinir á eftir til að reyna að bjarga viðkomandi.  Það getur hins vegar verið skemmtilegt að gefa ímyndaraflinu lausan tauminn og velta upp ýmsum "óraunhæfum" möguleikum.


mbl.is Björgunarmenn vonlitlir um að áhöfn „draugaskútu” finnist á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskandi að framsóknarmenn standi við þetta!

Óskandi væri að framsóknarmenn stæðu við það að fara ekki í áframhaldandi stjórn með Sjálfstæðisflokknum nema að þeir fái 17% fylgi hið minnsta eins og Guðni Ágústsson heldur fram.  þetta segi ég í ljósi þess að ég hef ekki nokkra trú á því að þeir fái nema í mesta lagi 10-12% fylgi í komandi kosningum. Versta mögulega niðurstaða fyrir þjóðina að mínu mati væri áframhaldandi stjórn þessara þreyttu helmingaskiptastjórnar, þar sem sérhagsmunir eru látnir ráða í stað almannahagsmuna.

Ég hef hins vegar ekki nokkra einustu trú á því að Framsóknarflokkurinn standi við þessi orð Guðna.  Í mínum huga er það kristaltært að sama hver atkvæðatalan verður hjá þessum flokkum, þá munu þeir halda áfram samstarfi fái þeir til þess meirihlutafylgi. Það er t.a.m. ótrúlegt en satt að Framsókn reynir ekki einu sinna að "endurheimta" vinstra fylgið, þeir hafa algjörlega gefist upp, enda kannski skiljanlegt! 


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vona að Sègoléne Royal fari með sigur af hólmi.

Mér líst mjög vel á það sem ég hef séð og heyrt til Sègoléne Royal, frambjóðanda Sósíalista í Frakklandi, ég vona og trúi að hún fari með sigur af hólmi 6. maí nk. Hef trú á því að hún muni stuðla að breytingum til batnaðar í Frönskum stjórnmálum.  Stöðnunin  mun taka enda með kjöri hennar!  Ekki væri síðan verra að þær Ingibjörg Sólrún  og Hillary Clinton færu einnig með sigur af hólmi á árinu.


mbl.is „Ségolène hefur það“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætla menn að leysa umferðarmálin á þessu svæði?

Tölvumynd af Norðurturni.Þetta er að vísu glæsileg bygging en mér líst ekki á þetta út frá umferðarsjónarmiðum.  Nú þegar er umferðarþunginn mjög mikill í kringum Smáralindina, hvað þá þegar þessi bygging verður komin í fulla notkun!

Mér skilst að um 1000 manns muni koma til með að starfa í byggingunni og þ.a.l. er ljóst að umferðarþungi muni aukast mikið.  Þar fyrir utan held ég að menn séu að "missa sig" í framboði af skrifstofuhúsnæði og sé ekki annað en fljótlega verði um offramboð að ræða.


mbl.is Fyrsta skóflustungan tekin að Norðurturni við Smáralind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk ánægt með Árna Johnsen?!

Það mætti segja mér það a.m.k. tvisvar ef Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt í Suðurkjördæmi!  Ég gæti fyrir mitt leyti aldrei og ég meina aldrei, kosið lista með mann eins og Árna Johnsen innanborðs og ég trúi því að svo sé um marga aðra. 

Maður sem dæmdur hefur verið fyrir þjófnað frá ríkinu, án þess svo mikið sem iðrast (kallar þetta tæknileg mistök), á ekki erindi á Alþingi Íslendinga!  Maðurinn fengi ekki einu sinni vinnu sem öryggisvörður hjá Securitas, né heldur sem óbreyttur lögreglumaður!  Ég er ekki með þessu að segja að menn geti aldrei fengið uppreist æru eða hlotið fyrirgefningu en í þessu tilviki er þetta glórulaust að mínu mati.  Þó hann sé duglegur og hafi unnið "vel" fyrir sína kjósendur þá hefur hann sýnt af sér siðlausa hegðun og á ekki skilið að hljóta kosningu. 


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftur og framsýni!

frambjo_endur_a_svi_iFrábær Landsfundarræða hjá Ingibjörgu Sólrúnu og ætti að blása jafnaðarmönnum byr í seglin!  Ræðan einkenndist af krafti og framsýni.  Gat því miður ekki verið þáttakandi í Landsfundinum að þessu sinni.  Hefði svo gjarnan viljað upplifa þá stemmingu sem greinilega átti sér þarna stað.

Ingibjörg fór mikinn í ræðunni og fjallaði m.a. um hið hrópandi óréttlæti, sem fellst í eftirlaunafrumvarpi alþingismanna og ráðherra, sem hún sagði að yrði að breyta í samræmi við eftilaunamál venjulegs fólks.  þá talaði hún um að Samfylkingin myndi sjá til þess, kæmist hún til valda, að Ísland yrði tekið út af lista hinna viljugu þjóða, sem styðja Íraksstríðið.

Það er ljóst út frá orðum ISG að aðaláhersla Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar og fyrir framtíðina eru efnahagsmál, umhverfismál og endurreisn velferðarkerfisins.  Vaxandi ójöfnuður væri eitthvað sem ekki væri hægt að líða og biðlistunum yrði að eyða, enda væri Samfylkingi orðin vön því að þurfa að eyða biðlistum eftir stjórn sjálfstæðismanna eins og hún gerði í Reykjavík.

Samfylkingin kemur einstaklega vel undirbúin í komandi kosningar, þar sem heimavinnan hefur verið unnin.  Þar ber sérstaklega að nefna stefnuna Fagra Ísland, Unga Ísland og Jafnvægi og framfarir rit um efnahagsmál og ábyrga fjármálastjórn.

Ég hef fulla trú á því að þessi glæsilegi Landsfundur Samfylkingingarinnar muni auka fylgi flokksins á landsvísu og hvetja alla sanna jafnaðarmenn til að fylkja liði undir merkjum hennar.  Ísland þarf á nútímalegum og lýðræðislega sinnuðum jafnaðarmannaflokki að halda, flokki sem hefur nýjar og ferskar hugmyndir að leiðarljósi og hefur almannahagsmuni að leiðarljósi, ekki sérhagsmuni!


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Verðum að standa vörð um jöfnuðinn í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður stjórnmálamaður er umdeildur!

Ingibjörg SólrúnÞað hversu fáir eru neikvæðir gagnvart Geir Haarde bendir fremur til þess í mínum huga að hann sé ekki mjög góður stjórnmálamaður.  Davíð var öflugur stjórnmálamaður, sennilega einn snjallasti stjórnmálamaður sem Ísland hefur alið og þetta segi ég þó að ég hafi verið eindreginn andstæðingur hans í stjórnmálum.  Hann var hins vegar lengst af óvinsælasti stjórnmálamaður landsins ásamt því að vera sá vinsælasti, menn voru annað hvort með honum eða á móti.  Að mínu  mati er það svo um góða stjórnmálamenn, menn "elska þá" eða "hata". 

Að sama skapi er það frekar til marks um það hversu góður eða öflugur stjórnmálamaður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er, hversu illa hún er liðin af pólitískum andstæðingum.  Ef hún ógnaði á engan hátt stöðu hinna flokkana og væri lélegur foringi og stjórnmálmaður væri þá nokkur ástæða fyrir fylgismenn þeirra að hafa jafn illan bifur á henni og raun ber vitni?! 

Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni fyrir okkur Samfylkingarfólk hversu fáir eru jákvæðir gagnvart Ingibjörgu, eða einungis 28%.  Í mínum huga staðfestir þetta hins vegar það að einbeittur vilji Sjálfstæðisflokksins og aðilum honum tengdum til að knésetja Ingibjörgu sem stjórnmálamann, hefur skilað árangri.  Þá er hún auðvitað líka táknmynd stjórnarandstöðunar, sem leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins og næst stærsta flokks þjóðarinna.  Sjálfstæðismenn geta ekki hugsað þá hugsun til enda að annar flokkur verði jafnstór eða stærri en hann og leggja allt í sölurnar til að svo verði ekki.  Það kæmi mér því ekki á óvart að þeir færu í stjórn með VG næst til þess að halda Samfylkingunni í stjórnarandstöðu og reyna að tryggja valdahlutföllin í sessi.


mbl.is Geir nýtur mestra vinsælda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn sammála Samfylkingu og VG um stóriðjustopp!

Það sem mér fannst athyglisverðast í þessum  ályktunardrögum Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi landsfund var það að flokkurinn virðist ætla að snúast á sveif með Samfylkingu og VG og styðja stóriðjustopp.  Í drögum að ályktun um iðnaðarmál segir að vegna þennslu sé æskilegt að hægja á ferðinni í virkjunarmálum og nauðsynlegt að klára rammaáætlun um virkjunarkosti sem fyrst. Ekki sé ástæða til að ríkisvaldið beiti sér fyrir frekari uppbyggingu stóriðju.  Hér er hreinlega verið að taka upp stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum!

Með þessu er ljóst að flokkurinn ,,þorir ekki" að standa gegn stöðugt vaxandi kröfu þjóðarinnar í þessum málum, sem í sjálfu sér ber að fagna.  Það virðist því vera að Framsóknaflokkurinn verði eini flokkurinn sem vilji ekkert stóriðjustopp, heldur halda ótrauðir áfram!  Ekki hef ég trú á því að þeir græði eitthvað á því, en það kemur í ljós, þegar að talið verður upp úr kjörkössunum.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur stefnir að frekari skattalækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband